Government Offices of Iceland

10/16/2024 | Press release | Distributed by Public on 10/16/2024 10:20

Frumvarp um kílómetragjald vegna notkunar ökutækja í samráðsgátt

Mjög góður árangur í orkuskiptum hér á landi kallar á að tekjuöflun af vegasamgöngum verði óháð jarðefnaeldsneyti. Innleiðing nýs, einfaldara og sanngjarnara kerfis þar sem greitt er almennt kílómetragjald í stað sértækra gjalda á bensín og olíu hófst árið 2023. Öruggar og greiðar samgöngur um land allt er sameiginlegt hagsmunamál þjóðarinnar. Markmiðið er að stuðla að auknu jafnræði hjá notendum vegakerfisins samhliða öflugum hvötum vegna orkuskipta til framtíðar.

Fyrsta skrefið í innleiðingunni var lögfest í byrjun þessa árs þegar tekið var upp kílómetragjald fyrir rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbíla. Áform um innleiðingu kílómetragjalds fyrir notkun allra annarra ökutækja á vegakerfinu árið 2025 voru birt í samráðsgátt stjórnvalda í ágúst. Í framhaldi af því hefur verið unnið frumvarp í samræmi við þau áform þar sem athugasemdir sem bárust hafa verið hafðar til hliðsjónar. Frumvarpið hefur nú verið birt til samráðs í samráðsgátt stjórnvalda.

Frumvarp um kílómetragjald fyrir öll ökutæki árið 2025

Stefnt er á að leggja fram frumvarp á haustþinginu um kílómetragjald vegna notkunar ökutækja á vegakerfinu sem komi til framkvæmda þann 1. janúar 2025.
Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að kílómetragjald komi í stað olíu- og bensíngjalda sem gjald fyrir notkun allra ökutækja í vegakerfinu. Til að stuðla að sanngjarnari gjaldtöku er horft til þess að kílómetragjald endurspegli eins og kostur er raunverulega notkun á vegainnviðum eftir fjölda ekinna kílómetra í samræmi við þyngd ökutækja óháð orkugjafa. Með sama hætti miðar frumvarpið að því að greitt verði fyrir raunverulega losun á koltvísýringi, (CO2) með uppfærðu kolefnisgjaldi sem taki mið af markaðsverði losunarheimilda í viðskiptakerfi Evrópusambandsins (ESB) og skapi þannig hvata til orkuskipta í samræmi við markmið Íslands í loftslagsmálum.

Í meginatriðum felur frumvarið í sér:

  • Kílómetragjald verði greitt fyrir notkun allra skráningar- og skoðunarskyldra ökutækja á vegakerfinu í stað olíu- og bensíngjalda sem verða afnumin samhliða.
  • Fjárhæð kílómetragjalds taki mið af þyngd ökutækja þar sem niðurbrot og slit af notkun ökutækja á vegum vex með aukinni þyngd.
  • Fjárhæð kílómetragjalds verði sett fram í 29 gjaldbilum þar sem fjárhæðin hækkar í samræmi við þyngd. Fyrir léttustu ökutækin, eins og fólksbíla sem eru með leyfða heildarþyngd allt að 3,5 tonn, verði gjaldið 6,7 krónur á kílómetra. Fjárhæðin hækki svo upp í 43,90 krónur fyrir ökutæki yfir 31 tonn.
  • Kílómetragjald verði greitt af þungum tengivögnum í samræmi við gjaldþrep kílómetragjalds og leggist við kílómetragjald ökutækisins sem dregur.
  • Í samræmi við markmið Íslands í loftslagsmálum og til að tryggja hvata til orkuskipta felur frumvarpið í sér að kolefnisgjald verði uppfært þannig að það taki betur mið af alþjóðlegu markaðsverði fyrir losunarheimildir. Það þýðir að fjárhæð kolefnisgjalds mun u.þ.b. tvöfaldast.

Greitt fyrir notkun

Jafnræði meðal notenda vegakerfisins er lykilatriði í þróun þess til framtíðar, þar sem allir ættu að greiða í samræmi við notkun, óháð orkugjafa. Í frumvarpinu er lögð áhersla á að gjöld endurspegli raunverulega notkun og þann kostnað sem hún leiðir af sér. Með innleiðingu kílómetragjalds munu allir notendur greiða í samræmi við notkun og þyngd ökutækja. Þannig mun gjaldtakan endurspegla betur raunverulegan kostnað við notkun vegakerfisins.

Greitt fyrir losun

Nýtt kerfi tryggir að það verði ávallt ódýrara að vera á bíl sem losar ekki CO2. Losun gróðurhúsalofttegunda er markaðsbrestur sem felst í neikvæðum ytri áhrifum þess að nota jarðefnaeldsneyti. Í frumvarpinu felst uppfærsla á á kolefnisgjaldi þannig að það taki mið af alþjóðlegu markaðsverði fyrir losunarheimildir. Í nýju kerfi verður orkukostnaður rafmagnsbíla áfram umtalsvert lægri en bíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti. Auk þess greiða hreinorkubílar ekki kolefnisgjald. Þetta tryggir hvata til orkuskipta í samræmi við markmið Íslands í loftslagsmálum.

Nýtt kerfi

Við ákvörðun um fjárhæð kílómetragjalds var horft til þess að kostnaður við rekstur meðalbensínsbíls, sem ekur 14 þ.km á ári og eyðir 7,5 l/100 km, sé óbreyttur. Frumvarpið gerir því ráð fyrir að opinber gjöld og orkukostnaður vegna meðalbensínbíls verði sá sami árið 2025 og hann er árið 2024. Kostnaður við rekstur annarra bíla er ýmist hærri eða lægri en meðalbensínbíls og er það m.a. háð eyðslu.

Innleiðing kílómetragjalds hefur gengið vel

Í upphafi þessa árs var tekið upp kílómetragjald fyrir rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbíla í flokki fólksbíla og sendibíla. Innleiðingin gekk vel og til marks um það hafði kílómetrastaða um 97% þeirra 51 þúsund bíla sem hún tók til verið skráð fyrir lok janúar. Sú reynsla sem hefur fengist, þeir lærdómar sem verið dregnir, auk mikilvægra ábendinga sem komið hafa fram, verða nýtt við áframhaldandi innleiðingu kerfisins árið 2025, en þá bætast við yfir 233 þúsund ökutæki.

Jákvæð þróun hefur veikt fjármögnun

Núverandi gjaldtökukerfi hefur miðast við ökutæki sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti. Ljóst er að það kerfi er að renna sitt skeið á enda vegna orkuskipta og minnkandi eldsneytisnotkunar.

Stjórnvöld hafa markað þá stefnu að auka notkun hreinna orkugjafa í samgöngum og hraða orkuskiptum með hagrænum hvötum. Þetta hefur skilað þeim árangri að Ísland er komið í fremstu röð meðal þjóða í orkuskiptum í vegasamgöngum. Þannig eru rafmagns- og tengiltvinnbílar orðnir rúmlega 20% af fólksbílum í umferð.

Sá mikli árangur sem náðst hefur vegna aðgerða stjórnvalda í orkuskiptum í samgöngum með, fjölgun umhverfisvænna og sparneytinna bifreiða, hefur leitt til þess að skatttekjur ríkissjóðs af ökutækjum og eldsneyti hafa rýrnað umtalsvert. Miklar framfarir í þróun sparneytnari bíla hafa leitt til þess að nýrri bílar geta ekið töluvert fleiri kílómetra á hverjum lítra eldsneytis og því greitt lægra gjald fyrir notkun. Þessi þróun hefur veikt getu ríkissjóðs til að fjármagna viðhald og uppbyggingu vega, en tekjurnar í hlutfalli við umferð hafa þegar dregist saman um 20% á einum áratug. Með áframhaldandi orkuskiptum er ljóst að þær mundu fjara út, ef ekki verður ráðist í kerfisbreytingu.

Aukin umferð kallar á samgöngubætur

Samhliða árangri í orkuskiptum, minni eldsneytiseyðslu bílaflotans og vaxandi fólksfjölgun hefur umferð aukist, með tilheyrandi álagi á vegakerfið og þörf fyrir samgöngubætur. Því er mikilvægt að til staðar sé kerfi sem getur stutt fjármögnun uppbyggingar og viðhalds vegasamgangna í takt við notkun.

Stjórnvöld hafa fjárfest í umfangsmiklum samgöngubótum á undanförnum árum til að bregðast við auknu álagi á vegainnviði. Í drögum að þingsályktunartillögu um samgönguáætlun 2024-2038 eru enn frekari framkvæmdir boðaðar með það að markmiði að tryggja greiðar og öruggar vegasamgöngur um allt land.

Vegir okkar allra

Á vefsíðunni Vegir okkar allra er að finna upplýsingar um nýja nálgun stjórnvalda á tekjuöflun af vegasamgöngum. Þar er að finna almennar upplýsingar um tilefni kerfisbreytingarinnar, spurt og svarað, auk ýtarlegri greina um þróun í tekjuöflun af vegasamgöngum.