Government Offices of Iceland

10/10/2024 | Press release | Distributed by Public on 10/10/2024 08:23

Undirrituðu viljayfirlýsingu um samstarf á sviði náttúruverndar, þjóðgarða og friðlýstra svæða

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku og loftslagsráðherra, og CarrinF. Patman, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, hafa undirritað viljayfirlýsingu um samstarf ríkjanna á sviði náttúruverndar og reksturs í þjóðgörðum og öðrum friðlýstum svæðum. Patmanundirritaði yfirlýsinguna fyrir hönd Þjóðgarðastofnunar Bandaríkjanna (e. U.SNationalPark Service) sem heyrir undir innanríkisráðuneyti landsins.

Á undanförnum árum hafa landverðir beggja vegna Atlantshafsins, auk annarra sem koma að starfsemi þjóðgarða og friðlýstra svæða kynnt sér hvernig þessi svæði eru rekin hjá þessum vinaþjóðum. Það hefur meðal annars falið í sér fræðsluheimsóknir, námskeið fyrir landverði og fræðslukynningar á netinu.

Þjóðirnar hafa nú ákveðið að skrifa undir viljayfirlýsingu sem festir í sessi áframhaldandi samstarf ríkjanna í málaflokknum.

Í yfirlýsingunni kemur m.a. fram að í samstarfinu felist að landverðir á Íslandi geti sótt fræðslu í bandaríska þjóðgarða og bandarískir landverðir sömuleiðis í þá íslensku, námskeið verði haldin af sérfræðingum U.S. NationalPark Servicefyrir landverði og annað starfsfólk friðlýstra svæða á Íslandi, námsheimsóknir til stofnana sem reka þjóðgarðana og/eða í þjóðgarðana sjálfa, og vefnámskeið eða vef-fundir þar sem farið er yfir málefni sem tengjast þjóðgörðum og örðum friðlýstum svæðum.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku og loftslagsráðherra: "Það er mikilvægt að undirrita þessa viljayfirlýsingu þar sem hún felur í sér mikil tækifæri til aukins samstarfs Íslands og Bandaríkjanna á sviði náttúruverndar. Hugtakið þjóðgarður verður til í Bandaríkjunum á seinni hluta 19. aldar þegar menn átta sig á mikilvægi þess að náttúruperlur þjóðarinnar yrðu áfram til staðar fyrir framtíðarkynslóðir. Við getum því lært mikið af þeim varðandi rekstur slíkra svæða, en ekki síður lagt ýmislegt til málanna þar sem þjóðgarðarnir okkar og önnur friðlýst svæði eru meðal mest sóttu ferðamannastaða landsins."

Carrin F. Patman, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi: "Mér er sannur heiður að undirrita fyrir hönd Þjóðgarðastofnunar Bandaríkjanna þessa sögulegu viljayfirlýsingu ásamt Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Viljayfirlýsingin styrkir samstarf okkar varðandi stjórn og vernd þjóðgarða og friðlýstra svæða. Bandaríkin og Ísland hafa skuldbundið sig til að varðveita náttúrufegurð og vistkerfi þjóðgarða ríkja okkar fyrir komandi kynslóðir. Þegar við deilum með hvort öðru þekkingu og góðum vinnsluháttum tekst okkur betur til við að vernda það stórkostlega landslag sem einkennir löndin."