Government Offices of Iceland

10/17/2024 | Press release | Distributed by Public on 10/17/2024 08:19

Utanríkisráðherrar Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna heimsóttu Úkraínu og Moldóvu

Utanríkisráðherrar Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna heimsóttu í gær Úkraínu. Andrii Sybhia, utanríkisráðherra Úkraínu, átti fund með ráðherrunum í hafnarborginni Odesa. Heimsóknin hófst með því að lagður var blómsveigur að minnismerki um fallna hermenn. Þá kynntu fulltrúar hafnaryfirvalda og fyrirtækja í matvælaframleiðslu fyrir ráðherrunum mikilvægi áburðar- og kornúflutnings frá Odesa fyrir matvælaöryggi á heimsvísu.

Á fundi sínum með Sybhia áréttuðu ráðherrarnir staðfastan stuðning Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna við varnarbaráttu Úkraínu. Auk þess ræddu ráðherrarnir áskoranir Úkraínu í orkumálum vegna þeirrar gríðarmiklu eyðileggingar sem orðið hefur á orkuinnviðum landsins af hálfu Rússlands. Af því tilefni var tilkynnt að ríkin muni leggja sérstaka áherslu á stuðning í orkumálum á komandi vetri.

Heimsóknin til Úkraínu kom í framhaldi af heimsókn til Moldóvu á þriðjudag þar sem Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin undirstrikuðu stuðning sinn við lýðræðislegar og efnahagslegar umbætur í Moldóvu á sama tíma og landið hefur mátt þola ítrekaðar fjölþáttaárásir af hálfu Rússlands. Ráðherrarnir funduðu annars vegar með Dorin Recean forsætisráðherra og hins vegar með Mihail Popșoi utanríkisráðherra. Undirrituð var samstarfsyfirlýsing ríkjanna átta og Moldóvu um stuðning við utanríkisþjónustu landsins.

Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, tók þátt í heimsóknunum í fjarveru utanríkisráðherra. Hann var einnig meðal frummælenda í pallborðsumræðum um Evrópusamstarf í háskólanum í Balti í Moldóvu, ásamt utanríkisráðherrum Danmerkur og Litháens.