Government Offices of Iceland

09/20/2024 | Press release | Distributed by Public on 09/20/2024 09:19

Dómsmálaráðherrar á Norðurlöndum snúa bökum saman gegn alþjóðlegri glæpastarfsemi

Á fundi dómsmálráðherra norrænu landanna þann 20. september 2024 samþykktu ráðherrarnir að taka fast á glæpastarfsemi sem teygir anga sína yfir landamæri og er alvarleg ógn gegn samheldni í norrænu löndunum.
Ráðherrarnir ræddu baráttuna gegn skipulagðri glæpastarfsemi með áherslu á það þegar börn og ungmenni eru fengin til grófra ofbeldisbrota, afskipti af réttarkerfinu, efnahagslega brotastarfsemi og mansal.

"Skipulögð glæpastarfsemi fer að miklu leyti fram þvert á landamæri, bæði á Norðurlöndum og á heimsvísu. Við dómsmálaráðherrarnir áttum í dag mikilvægt samtal um það hvernig við getum eflt baráttuna gegn slíkri glæpastarfsemi bæði saman og hvert í sínu lagi. Það snýst um að standa vörð um frelsi og endurreisa traust í samfélögum okkar," segir Gunnar Strömmer, dómsmálaráðherra Svíþjóðar sem gegnir formennsku í Norrænu ráðherranefndinni í ár.

Ráðherrarnir hittu jafnframt fulltrúa stærstu samfélagsmiðlanna (Google, Meta, Snap og TikTok) til að ræða hlutverk þeirra þegar kemur að því að koma í veg fyrir glæpastarfsemi.

Ný norræn samstarfsáætlun fyrir 2025-2030

Á fundinum samþykktu norrænu dómsmálaráðherrarnir einnig samstarfsáætlun sína fyrir tímabilið 2025-2030. Í samstarfinu verður áhersla lögð á aðgerðir sem stuðla að samræmdri norrænni löggjöf, réttaröryggi á Norðurlöndum og forvarnir og baráttu gegn skipulagðri glæpa- og hryðjuverkastarfsemi sem oft teygir anga sína þvert á landamæri.

"Norrænu dómsmálaráðherrarnir hafa ákveðið að leggja áherslu á þau svið sem skipta sköpum í vinnunni við að efla samheldni í norrænu löndunum. Saman getum við tryggt örugga og lýðræðislega framtíð á svæðinu."
Karen Ellemann, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar

Samstarfsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar í dómsmálum verður kynnt opinberlega ásamt samstarfsáætlunum annarra sviða í lok október.

Norrænt samstarf á sviði dómsmála

Samstarf dómsmálaráðherranna byggist á Helsingforssamningnum, sem kveður á um áherslur norræns samstarfs, ásamt núverandi samstarfsáætlun.

Norrænu dómsmálaráðherrarnir funda einu sinni á ári vegna norræns samstarfs. Embættismannanefnd skipuð fulltrúum frá dómsmálaráðuneytum norrænu landanna undirbýr fundina. Nefndin ber jafnframt ábyrgð á því að hrinda ákvörðunum ráðherranna í framkvæmd og fylgja þeim eftir. Nefndin fundar alla jafna þrisvar sinnum á ári.