Results

Government Offices of Iceland

11/28/2024 | Press release | Distributed by Public on 11/28/2024 07:49

Samantekt um aðgerðir í varnarmálum

Miklar breytingar hafa orðið á öryggisumhverfi Íslands á síðustu árum í kjölfar allsherjarinnrásar Rússlands í Úkraínu og í ljósi vaxandi spennu í alþjóðasamskiptum.

Íslensk stjórnvöld hafa við þessar aðstæður lagt ríka áherslu á virka þátttöku Íslands í alþjóðasamvinnu sem miðar að því að standa vörð um lýðræði, mannréttindi og alþjóðalög. Samhliða þessu hefur markvisst verið unnið að því að efla þátttöku í varnarsamvinnu og efla innlendan viðbúnað til að mæta þessum nýju öryggisáskorunum.

Utanríkisráðuneytið hefur unnið stutta samantekt um helstu áfanga í vinnu að öryggis- og varnarmálum síðustu ár. Þar kemur fram að búið er efla þátttöku í starfi og verkefnum Atlantshafsbandalagsins, stórauka norrænt varnarsamstarf og aðra svæðisbundna samvinnu og efla samstarf við helstu grannríki í Norður-Evrópu.

Einnig er gerð grein fyrir stuðningi Íslands við varnarbaráttu Úkraínu með framlögum í sjóði, þátttöku í þjálfunarverkefnum og gegnum tvíhliða samstarfsverkefni. Sá stuðningur er samofin öryggishagsmunum Íslands og lýðræðisríkja sem vilja standa vörð um alþjóðalög og sjálfsákvörðunarrétt ríkja.

Í samantektinni er ennfremur gerð grein fyrir helstu aðgerðum til að efla innlendan viðbúnað og samstarf um öryggis- og varnarmál. Margt hefur áunnist en margt er ógert og er samantektin ætluð sem innlegg í áframhaldandi stefnumótun og umræðu um varnarmál.

"Staðan í okkar heimshluta er óvissari en hún hefur verið frá stofnun lýðveldis. Íslendingar og íslensk stjórnvöld standa frammi fyrir því að þurfa að taka öryggis- og utanríkismál alvarlegar en nokkru sinni fyrr. Eins og fram kemur í þessari samantekt höfum við tekið mikilvæg skref í samstarfi við bandalagsríki okkar á undanförnum árum en það mun þurfa meira til því fátt bendir til þess að þeim ólgutímum sem við lifum nú sé ljúki í bráð," segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Hér má lesa samantekt ráðuneytisins um varnarmál.